Sumar og sólarvörn

Sumar og sólarvörn

  • 20.05.2021

Óvarin húð

Á þessum tíma árs er oft mikil eftirvænting hjá fólki fyrir því að sumarið fari að bresta á með sól og hlýju. Með hækkandi sól er gott að minna á mikilvægi þess að verja húðina. Stærsti hluti húðkrabbameina er rakin til húðskemmda af völdum of mikillar útfjólublárrar geislunnar. Það er vert að hafa í huga að geislaskemmdir á húð safnast saman yfir æviskeiðið allt frá barnsaldri. Geislaskemmdir hjá börnum og unglingum eiga mikinn þátt í myndun sortuæxla, en börn eru viðkvæmari fyrir sólargeislum og verða frekar fyrir sólskaða en fullorðnir.

 

Húðkrabbamein

Eru meðal algengustu krabbameina en jafnframt hvað læknanlegust ef þau greinast snemma. Greining á húðkrabbameini byggist á læknisskoðun sem er staðfest með sýnatöku og vefjarannsókn. Þess vegna er mikilvægt að leita til læknis ef fram koma breytingar á húð eins og ef blettir stækka, eru mislitir eða mjög dökkir, óreglulegir, breyta um lit eða það koma sár sem ekki gróa.

  • 95% þeirra sem greinast með húðkrabbamein læknast ef krabbameinið greinist snemma þ.e.a.s. á byrjunarstigi.

 

Áhættuhópar fyrir húðkrabbameini

  • Húðkrabbamein eru algengari hjá þeim sem eru ljósir á hörund og með blá, græn eða grá augu.
  • Einstaklingar sem hafa sólbrunnið illa fyrir 18 ára aldur eru frekar í hættu á að fá sortuæxli síðar á ævinni.
  • Ættarsaga, þeir sem hafa marga og/eða óreglulega fæðingarbletti ættu að fylgjast vel með blettunum og þá sérstaklega ef saga er um sortuæxli í ættinni.
  • Langvarandi notkun ónæmisbælandi lyfja getur aukið áhættu.

 

Sólarvörn

Sólarvarnir eru merktar með sólarvarnarstuðli eða SPF (Sun Protection Factor). Við getum minnkað geislunaráhrif sólar með því að nota sólarvörn sem er með SPF 30 eða meira og þarf vörnin að vera með UVA og UVB vörn. Önnur ráð eru að nota hatt, halda sér undir skyggni og hlífa með fötum, forðast að vera í sól lengi í einu og halda sér frá geislunum milli kl. 12 og 15 á Íslandi. Gott er að hafa í huga að hluti sólargeisla sleppur í gegnum ský og því er einnig mælt með sólarvörn þegar skýjað er. Börn og fólk sem er viðkvæmt í húðinni ætti að fara sérstaklega varlega og ungabörn ættu ekki að vera í sól. Flestar sólarvarnir endast í u.þ.b. 2,5 ár og því er mikilvægt að endurnýja gamlar sólarvarnir.

 

Tökum upp sólarvörnina og fylgjumst með blettum á húð!

Deila grein