Neysla orkudrykkja

Neysla orkudrykkja

  • 28.04.2021

Skyndilausn við þreytu

Mikil aukning er á koffíneyslu hjá yngra fólki. Á sama tíma hefur verið mikil umræða um lítinn svefn og vandamál því tengdu hjá þessa hópi. Þegar einstaklingar sofa ekki nógu lengi eða nægilega vel og vakna þreyttir er oft vinsælt að grípa til orkudrykkja til þess að koma sér af stað inn í daginn. Orkudrykkir eru örvandi drykkir sem eru flestir bættir með miklu magni af koffíni.

 

Hvað er koffín ?

Koffín er ávanabindandi efni sem eykur virkni dópamíns í heilanum. Efnið nær hratt inn í blóðrásina og hefur áhrif á miðtaugakerfið þar sem það veldur m.a.

  • Útvíkkun æða
  • Örari hjartslætti
  • Auknu blóðflæði til líffæra

 

Helmingunartími koffíns ?

Koffín og áhrif þess vara  mun lengur í líkamanum heldur en flestir gera sér grein fyrir. Virkni koffíns er mest u.þ.b. 30 mínutum eftir inntöku. En til þess að átta okkur betur á hversu langvarandi áhrifin eru þarf að horfa til þess hversu hratt líkaminn vinnur úr koffíninu. Helmingunartími koffíns er nefnilega nokkuð langur eða um 6 klukktímar. Vinsæll orkudrykkur á markaði innheldur t.d. 180 mg af koffíni í einni dós og eru margir sem innbyrða fleiri en einn og tvo yfir daginn. Ef við drekkum 180 mg af koffíni kl 16:00 þá má áætla að magn þess í líkamanum sé um:

  • 180 mg kl 16:00
  • 90 mg kl 22:00
  • 45 mg  kl 4:00

Koffín er örvandi og getur mikið magn þess því valdið verulegum erfiðleikum við að sofna ásamt því að hafa neikvæð áhrif á gæði svefns með því að minnka djúpsvefn. Því er ráðlagt að neyta ekki koffíns eftir kl 14:00 á daginn. Börn, unglingar og barnshafandi konur eru sértaklega viðkvæm fyrir mikilli koffín inntöku.

 

Að lenda í vítahring

Þegar svefn er af skornum skammti og svefngæði skert getur verið auðvelt að lenda í vítahring orkudrykkjaneyslu. Einstaklingar sem leita í koffíndrykki eftir svefnlausa nótt geta skert svefnlengd og gæði svefns næstu nætur enn frekar. Það verður alltaf erfiðara að sofna að kvöldi með koffín í líkamanum og þrátt fyrir að ná að sofna þá eru svefngæðin skert sem veldur því að við þörfnumst alltaf meira og meira magns til að halda okkur vakandi og vera orkumikil yfir daginn.

Örvandi áhrif koffíns geta haft eftirfarandi áhrif:

  • Hækkaður blóðþrýstingur
  • Höfuðverkur
  • Ógleði
  • Kvíði
  • Neikvæð áhrif á svefn
  • Glerungseyðing í tönnum

 

Lykilatriðið er að neysla orku- og koffíndrykkja sé skynsamleg og ábyrg og þarf sérstaklega að huga að ungmennum og einstaklingum með svefnerfiðleika í þeim efnum.

 

Deila grein