Mottumars

Mottumars

  • 02.03.2021

Krabbamein karla

Við viljum hvetja alla til að kynna sér átakið mottumars sem er vitunarvakning um krabbamein hjá körlum. Flottar mottur prýða þá marga karlmenn landsins til að vekja athygli og auka sýnileika á þessum málaflokki.

En einn af hverjum þremur karlmönnum má búast við að greinast með krabbamein einhverntíma á lífsleiðinni og er tæplega helmingur þeirra sem greinast á aldrinum 40 – 69 ára.

859 karlmenn greinast að meðaltali með krabbamein ár hvert á Íslandi og er meðalaldur þeirra við greiningu 68 ár.

Í árslok 2019 voru 7.110 karlar á lífi sem höfðu greinst með krabbamein.

 

Blöðruhálskirtilskrabbamein

Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbamein íslenskra karlmanna. Hér greinast um 202 tilfelli á ári hverju sem samsvarar 24% af öllum krabbameinum karla og er meðalaldur við greiningu 70 ár.

Einkenni blöðruhálskirtilskrabbameins geta verið ólík og er mikilvægt að leita álits fagaðila ef við höfum áhyggjur. Dæmi um einkenni geta verið.

  • Þvagtregða – að eiga í erfiðleikum með að byrja þvaglát eða að bunan sé kraftlítil
  • Tíð þvaglát – sérstaklega á næturna
  • Blöðrubólga – verkur eða óþægindi við þvaglát
  • Blóð í þvagi eða sáðvökva – góðkynja sjúkdómar í blöðruhálskirtli eru þó alengasta orsök þessara einkenna
Eistnakrabbamein

Annað mein sem leggst eðli sínu samkvæmt eingöngu á karlmenn er eistnakrabbamein. Það leggst helst á unga einstaklinga og er meðalaldur við greiningu eingöngu 34 ár en fjöldi tilfella er um 15 tilfelli á ári.

Lykilatriði í snemmgreiningu er virk þreifing og skoðun á eistum. Þetta er það krabbamein sem flestir læknast af þrátt fyrir hafi dreift sér til annarra líffæra en um 99 % eru á lífi fimm árum eftir greiningu. Dæmi um einkenni geta verið

  • Þyngdartilfinning i eista
  • Sársaukalaus stækkun á öðru eistanu
  • Fyrriferð í eista sem þreifast við skoðun

Við mælum með að allir karlmenn kynnir sér bæklinginn um sjálfsskoðun eistna: Sjalfskoduneistna.pdf (krabb.is)

Algengustu krabbameinin sem greinast í karlmönnum
  • Blöðruhálskirtill
  • Ristill og endaþarmur
  • Lungu
  • Húð
  • Þvagvegur og þvagblaðra
  • Heila og miðtaugakerfi
  • Nýru
Einkenni

Mælt er með að veita mögulegum einkennum krabbameins athygli og bregðast við bæði fljótt og vel

  • Óvenjuleg blæðing frá endaþarmi, kynfærum, geirvörtum, með þvagi eða hráka
  • Þykkildi eða hnútar við þreifingu
  • Óútskýrt þyngdartap
  • Þrálátur hósti eða hæsi
  • Langvarandi kyngingarerfiðleikar
  • Sár sem gróa ekki t.d. í munni eða á kynfærum
  • Breytingar á hægðum eða þvaglátum
  • Nýir eða breyttir fæðingarblettir
  • Langvarandi óþægindi frá meltingarvegi
  • Viðvarandi verkir jafnvel í hvíld
  • Þreyta sem minnkar ekki við hvíld

 

Með mikilli framþróun í meðhöndlun og vitunarvakningu hafa lífshorfur þeirra sem greinast með krabbamein batnað mikið á undanförnum árum og eru um 69 % karla sem læknast eða lifa meira en 5 ár frá greiningu. Lykiliatriði í meðhöndlun krabbameina er snemmgreining og eykur hún verulega á lífslíkur og möguleika á lækningu.

 

Forvarnir

Mikilvægt er að muna að við getum haft áhrif og að allir geta minnkað líkurnar á að fá krabbamein með því að

  • Hreyfa sig reglulega
  • Borða hollan og fjölbreyttan mat
  • Reykja ekki
  • Takmarka neyslu áfengis
  • Varast óhófleg sólböð

Deila grein