
Hreyfing – Allir út !
Lengri dagur aukin útivist
Nú þegar daginn fer að lengja og sólin að hækka á lofti er tilvalið að huga að aukinni hreyfingu. Hreyfingin getur komið úr ýmsum áttum og hreyfing utandyra er tilvalin leið til að njóta náttúrunnar og er þar fyrir utan ókeypis.
Hreyfing gegnir lykilhlutverki fyrir heilsu og vellíðan alla ævi. Hún hefur jákvæð áhrif á öll líffærakerfi líkamans. Hún styrkir hjarta og æðakerfið og bætir andlega líðan, styrk og þol.
Við viljum ekki allt eða ekkert
Hreyfing er mikilvæg fyrir okkur öll, óháð aldri, holdafari, líkamlegri getu eða andlegri heilsu og er ódýrasta leiðin til að fyrirbyggja sjúkdóma.
Vísbendingar eru um að áreynslan þurfi ekki að vera mikil til þess að hafa heilsubætandi áhrif. Mikilvægt er því að detta aldrei í allt eða ekkert hugsunina. Stutt æfing er betri en engin og öll hreyfing skiptir máli. Í okkar þjóðfélagi er tími oft af skornum skammti og því mikilvægt að átta sig á að það þarf ekki mikla hreyfingu til að ná fram heilsubætandi áhrifum.
Hreyfing í lotum þ.e. 10-15 mínútur í senn sem nær 30 mínútna uppsöfnuðum tíma er heilsubót, en mælt er með því að fullorðnir hreyfi sig rösklega í minnst 30 mínútur á dag og börn og unglingar ekki minna en 60 mínútur. Æskilegt er að setja sér raunhæf markmið og varast of mikið álag í byrjun. Þá þarf að finna sér æfingar við hæfi og taka tillit til líkamsástands. Mörgum reynist vel að festa ákveðna æfingardaga og tíma og jafnvel fá með sér æfingarfélaga bæði til skemmtunar og frekara aðhalds.
Regluleg hreyfing bætir og kætir
Við reglulega hreyfingu eykst þolið og þreyta minnkar. Með reglulegri ástundun kemst líkaminn hægt og rólega í betra form og þá hægist frekar á púlsinum. Með áframhaldandi þjálfun breytist svo brennslan og vöðvarnir fara að brenna meiri fitu, sem sparar forðasykurinn. Eftir nokkurra mánaða þjálfun er líklegt að líkamsþyngd hafi minnkað ef ekki er borðað meira en áður. Kviðfitan sem hefur myndast og eykur almennt hættuna á hjarta og æðasjúkdómum fer minnkandi við aukna hreyfingu og aukna brennslu.
Jákvæð áhrif hreyfingar
- Hjarta og æðakerfi styrkist
- Aukið þol og sterkari vöðvar
- Minni líkur á beinþynningu
- Skilvirkari efnaskipti
- Jákvæð áhrif á meltingu
- Betri svefn
- Jákvæð áhrif á andlega líðan og sjálfsöryggi
Veldu hreyfingu í stað hreyfingarleysis!